Önnur fæðingin mín – þar sem ég treysti

Hæ elsku Auður og jógasystur!

Takk fyrir síðustu mánuði og allar dásamlegu stundirnar saman.

Þegar við maðurinn minn komumst að því að við ættum von á öðru barni varð ég strax spennt að fara í Jógasetrið og mæta aftur í tíma þar sem þeir hjálpuðu mér svo ótrúlega mikið á síðustu meðgöngu og í fæðingunni. Ég sendi söguna mína líka eftir að dóttir mín Ásthildur Bára fæddist en í þeirri fæðingu var það aðallega ÁST sem hjálpaði og mantran  „ég er opinn farvegur lífsins“.

Í haust þegar ég byrjaði í jóganu hafði pabbi minn nýlega greinst með ólæknandi krabbamein og voru það helst tímarnir hjá Auði sem hjálpuðu mér að gleyma því í smá stund og gáfu mér tækifæri til að slaka á og ná að einbeita mér að mér og syni mínum ❤️ Það er ómetanlegt að líta til baka og sjá hversu mikið tímarnir í Jógasetrinu hafa hjálpað mér enda tóku við erfiðir tímar að fylgja pabba eftir í lyfjameðferðir og nýjan veruleika❤️ það skiptir svo ótrúlega miklu máli að hlúa vel að sér á meðgöngu sama hvað gengur á í lífinu.

 

En settur dagur hjá syni okkar var laugardagurinn 17. febrúar, á afmælisdegi bestu vinkonu minnar. Planið hjá okkur hjónum var að fara með dóttur okkar í næturpössun til foreldra minna og fara í afmælisveislu og vonandi koma svo fæðingunni af stað! Raunin var aðeins öðruvísi þar sem Ásthildur Bára fékk ælupest og ég endaði á að fara ein í veisluna og rómantíska hugmyndin því fyrir bí! Það var þó mjög gott að fara út úr húsi og hitta góða vini og gera eitthvað skemmtilegt. Daginn eftir helltist yfir mig mikil hreiðurgerð, ég kláraði að hekla teppið handa  „Mosa“ litla og þvoði það, pakkaði í tösku fyrir mig, maðurinn minn kláraði að setja saman vögguna fyrir litla og margt fleira. Á síðustu meðgöngu gekk ég 11 daga fram yfir og núna var ég staðráðin í því að verða ekki eins taugatrekkt og þá því það reyndist mér svo erfitt að bíða! Svo við bjuggumst alls ekki við því að hann kæmi fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku.

En á sunnudagseftirmiðdag fór ég að fá mikla samdrætti og öðruvísi en undanfarnar vikur. Ég sagði við manninn minn að þetta væri furðulegt en mögulega væri litli að undirbúa komu sína. Um kvöldið voru samdrættirnir orðnir óþægilegir og ég sendi skilaboð á mömmu og systur mínar að ég héldi að það styttist í komu drengsins. Við fórum að sofa en það var eins og dóttir okkar fyndi að eitthvað væri að gerast því hún vaknaði fyrir miðnætti og maðurinn minn endaði á að sofa á dýnu inni hjá henni svo ég gæti sofið eitthvað. Klukkan 3 vakna ég við mikla verki, ákveð að fara á klósettið, taka verkjalyf og reyna sofna aftur. Fljótlega sá ég að það myndi ekki virka þannig að ég fann til boltann, heyrnartólin og jóga lagalistann og byrjaði að anda mig í gegnum bylgjurnar, slaka á og hugsa inn á við. Á sama tíma hugsaði ég um að kraftaverkirnir væru að færa mér kraftaverkið okkar og hlakkaði svo til að fá hann fyrr í hendurnar en við héldum!

Um kl. hálf 4 fer ég að tímasetja kraftaverkina og finn að það er ansi stutt á milli og finn líka að ég er orðin mjög svöng enda hafði ég litla matarlyst á sunnudaginn. Svo þá fór ég fram í eldhús og fékk mér cheerios að borða á milli verkja og við það vaknaði maðurinn minn. Þarna voru ca. 2- 3 mínútur á milli verkja og manninum mínum fannst þetta allt svo kómískt að sjá enda bjuggumst við ekki við þessu strax. Ég að borða cheerios í pásum og þegar kraftaverkirnir komu hallaði ég mér fram og hélt í eldhúseyjuna. Þegar ég var búin að borða lét ég renna í baðið og fór í það en fann að ég náði ekki að slaka nógu vel á og fannst á sama tíma lengjast full mikið á milli bylgja og tæmdi því baðið og fór í sturtu. Maðurinn minn lét mig alveg í friði en fylgdist vel með mér og gaf mér mitt rými sem var akkúrat það sem ég þurfti. Klukkan var að verða 6 þegar ég kalla á manninn minn og segi honum að ég haldi að við þurfum að fara hringja í Björkina og foreldra hans sem ætluðu að passa dóttur okkar. Klukkan 6 hringjum við og foreldrar hans voru mætt 20 mínútum seinna og verkirnir fóru að harðna. Dóttir okkar vaknaði og maðurinn minn útskýrði fyrir henni að nú væri litli bróðir loksins að koma í heiminn! Mér fannst hann taka full langan tíma í að útskýra allt og bað hann vinsamlegast um að drífa sig út í bíl með töskurnar sem hann og gerði!

Á leiðinni í Björkina komu nokkrar bylgjur og mér fannst styttast á milli þeirra og krafturinn aukast með hverri bylgju. Mikið var notalegt að koma að Björkinni og sjá kertaljósið fyrir utan sem gefur til kynna að fæðing sé í gangi. Yndislega Sunna ljósmóðir tók á móti okkur, hlustaði á hjartslattinn hjá litla, tók blóðþrýstinginn hjá mér og svo kom næsti verkur og ég heyrði hvernig hljóðin í mér breyttust og rembingsþörfin mætti. Sunna var ekki lengi að hringja í Elvu sem kom stuttu seinna og ég fór ofan í baðið. Ofan í baðinu hélt ég áfram að anda, slaka og treysta en greip lika í möntruna: ég er fjall, ekkert fær með haggað og ekkert raskar ró minni ❤️ maðurinn minn hvatti mig áfram og minnti mig á að halda áfram að anda svona flott og slaka vel á í pásum milli bylgna. Vá hvað það var gott að fá hvíldina þótt hún væri stutt.

Í síðustu fæðingu fann ég ekki eins sterkt fyrir rembingsþörfinni svo það var magnað að finna hvernig líkaminn tók yfir og ég þurfti bara að anda, slaka og treysta honum fyrir verkefninu. Ég fann hvernig drengurinn fór neðar og verkirnir urðu sterkari og þá minnti Sunna mig á það sem við höfðum rætt, núna ætlaði ég að finna með höndunum fyrir kollinum og stýra honum rólega niður, ekki leyfa litla að hoppa öllum út í einu eins og systir hans gerði!

Mikið var það magnað að finna fyrir litla hárprúða kollinum og svo kom næsta bylgja og hann synti í heiminn í baðinu þar sem pabbi hans tók á móti honum og setti á bringuna mína. Þarna var hann, ó svo fallegur og líkur systur sinni, mættur í heiminn kl. 07:06❤️ 4 tímum eftir að ég vaknaði við verki og 30 mínútum eftir að við mættum í Björkina. Ljósmæðurnar í Björkinni eru svo frábærar og að okkar mati sáu þær til þess að fæðingin varð fullkomin!

Við fjölskyldan svífum um á bleiku skýi, svo þakklát og glöð fyrir litla bróður og stóru systur, sem er yfir sig ástfangin❤️

 

Takk kærlega fyrir allt, elsku Auður, ég hlakka til að koma aftur síðar í meðgöngujóga og í mömmu jóga.

Gangi ykkur öllum ótrúlega vel, kæru mæður, þið getið þetta með ÁST að leiðarljósi og sama hvað á gengur, þá munið þið upplifa ykkar jógafæðingu!

 

Kærleikskveðjur,

Sigga Erla og litli Bjarkason

 

 

„Það er meðfætt tilkall hverrar manneskju að vera hraust, helg og hamingjusöm“

 

– Yogi Bhajan.