Fæðingarsögur

Heimafæðing – fæðingarsaga

Elsku Auður, mig langar að byrja á að þakka þér og öllum mömmunum fyrir samfylgdina á meðgöngunni. Það er ómetanlegt að koma í Jógasetrið og fá að iðka jóga og tengjast barninu á meðan meðgöngunni stendur.

Á fyrri meðgöngunni, fyrir 7 árum, byrjaði ég hjá þér í kringum 25 viku en ég beið ekki nema fram á 16 viku í þetta skiptið og sé ekki eftir því.

Við ákváðum mjög snemma á meðgöngunni að stefna á heimafæðingu. Mörgum fannst það skrýtið og skildu ekki afhverju í ósköpunum við myndum vilja það. Tilhugsunin að vera heima, vitandi hvað væri til í ískápnum, þekkja klósettið, sturtuna og allar aðstæður til hins ítrasta og vita hvað við getum gert hvar og geta fært sig frjás á milli staða fannst okkur heillandi. Covid gerði ekkert annað en að styrkja stöðu okkar í þessu ferli og við þurftum ekki að hafa neinar einustu áhyggjur yfir því að maðurinn minn fengi ekki að vera viðstaddur fæðinguna. Við fórum líka á parakvöldið í Jógasetrinu og tengdumst hvort öðru enn betur í gegnum það.

Ég átti síðast á 38 viku og var þá frekar óviðbúin fæðingunni en núna var ég farin að fylgjast með vísbendingum um fæðinguna í kringum þann tíma og endaði á að eiga á 38 viku +3dagar. Ég nýtti allar stundir í að undirbúa mig, fór út í dásamlegu náttúruna okkar eins mikið og ég gat til að tengjast náttúrueðlinu. Aðfaranótt fimmtudags vakna ég um 3 um nóttina með væga óreglulega verki og held áfram að sofa eins og ég get. Við fjölskyldan vöknum svo um 7 og saman komum við dóttur okkar í skólann kl 9 og förum svo í göngutúr í náttúrunni, leikum okkur, kúrum, setjum á tónlist og dönsum þar sem enginn sér til okkar. Við höldum svo áfram deginum, ég stoppa hér og þar, hvar sem er, og bið manninn minn að koma í standandi borð með mér eins og ekkert væri eðlilegra. Setjumst saman á kaffihús og fáum okkur bröns en höldum svo fljótlega heim þar sem verkirnir ágerast.

Við förum svo að setja upp laugina sem við höfuðum fengið hjá Björkinni fyrr í vikunni. Ég kem blómunum mínum fyrir í kring um laugina og hef boltana og lavander/lemon spreyið tilbúið við laugina líka. Ég fer ofaní þegar hún er tilbúin og þvílíka verkjastillingin. Reyndar svo mikil að samdráttum fækkaði og það hægðist aðeins á öllu. Um 16 kemur ljósmóðir frá Björkinni og segir að það sé ekkert verra að það hægist aðeins á ferlinu og ég fái að hvíla mig vel fyrir loka bylgjurnar. Hún skoðar mig fljótlega, að minni ósk, og ég er þá með 4-5 í útvíkkun. Ég fer ekki strax aftur ofan í laugina, ég vildi ná samdráttunum aftur upp og með því að gera standandi köttur og kú fann ég að ég væri að hjálpa kraftaverkinu okkar að komast í heiminn, færast niður fæðingarveginn. Ég gat nánast framkallað samdrátt með því að gera standandi köttur/kú sem kom mér svo á óvart því í fyrri fæðingu var mér sagt að ég væri einfaldlega ekki að fá nógu sterka samdrætti til að framkalla fæðingu og mamma mín fékk aldrei nógu sterka samdrætti svo það þurfti að setja upp dreipi/gefa nefsprey. Hérna náði ég að taka tökin til mín og skrifa nýja sögu.

Ég fór aðeins aftur ofaní laugina en vildi svo koma uppúr. Ég var svo fegin að hafa ekki verið búin að ákveða að eiga ofaní í lauginni heldur hafa hana sem möguleika því það var svo gott að koma uppúr og finna bylgjurnar koma aftur af meiri hörku.

Maðurinn minn stóð eins og klettur við mig allan tímann, ég man að ég bað um klaka á einum tímapuntki undir lokin og hann ætlaði að stökkva til en ég sagði svolítið harkalega við hann, “nei, þú verður hér, Harpa (ljómsóðir) sækir klaka”. Hann hélt mér uppi þar sem ég var í djúpri hnébeygju í hvert sinn sem það kom samdráttur. Haföndunin hjálpaði mér mikið framan af og sömuleiðis tilhugsunin um að vera opinn farvegur fyrir nýja lífið. Ég hummaði svo með sjálfri mér slaka, slaka.

Ljósmóðirin hjálpaði mér, eða réttar sagt litla krílinu okkar, að koma sér í betri stöðu í grindinni og þá var komið að þessu. Nú vildi ég rembast. Ég rifnaði mjög illa í fyrri fæðingunni og ég fann þegar á hólminn var komið að ég var hrædd um að rifna aftur þó ég hafi unnið mikið með þessar tilfinningar fram að fæðingunni. Maðurinn minn fann það á mér og hvatti mig áfram og sagði að þetta yrði allt í lagi, kraftaverkið okkar væri að koma og ég þyrfti að slaka á og hjálpa honum í heiminn. Höfuðið var komið hálfa leið út og ég beið í 3-4 bylgjur og andaði bara í gegnum þær án þess að rembast. Ljósurnar og maðurinn minn hjálpuðu mér í nýja stellingu, sem þær kölluðu spretthlauparann, hálfgert “low lunge” með annan fótinn fram og hinn aftur eins og ég væri að fara að taka af stað í spretthlaupi. Svo kom að því að ljósmæðurnar báðu mig um að rembast vel í næstu bylgju. Ég gerði eins vel og ég gat og eftir tvær bylgjur í viðbót gusaðist gullið okkar út og þvílíki léttirinn og gleðin sem braust út við að heyra gráturinn hans. Hann var fæddur 20:21 eftir ca 4 tíma í virkri fæðingu.

Ég hélt á honum húð við húð og lagðist svo útaf með hann í rúmminu okkar og áður en ég vissi af var hann búinn að finna brjóstið og byrjaður að sjúga. Þá hjálpaði ljósmóðirin mér að fæða fylgjuna og þegar hún var komin út fékk hún nægan tíma til að klára að púlsa út og svo klippti maðurinn minn á naflastrenginn og við héldum áfram að liggja saman með nýja kraftaverkinu okkar. Við erum í skýjunum með fæðinguna, samvinnan og samheldnin í teyminu var ólýsanleg. Við fengum að gera hlutina alveg eftir okkar vilja en ljósmæðurnar voru alltaf til taks og tilbúnar að koma með sínar hugmyndir þegar við leituðum eftir þeim. Harpa og Arney voru viðstaddar hjá okkur og þær sýndu ferlinu svo mikla virðingu og töluðu af svo mikilli virðingu við okkur sem við erum afar þakklát fyrir.

Í rembingnum náði ég ekki alveg að halda hafönduninni enda er það kannski ekki raunhæft markmið en það sem hefur komið mér mikið á óvart og ég fann ekki eftir síðustu fæðingu eru samdráttaverkir í leginu eftir fæðinguna. Þar hefur haföndunin bjargað mér! Að anda alveg ofan í verkinn og sleppa alveg tökum á verknum á fráöndun. Öndunin finnst mér líka hjálpa mikið í fyrstu tökum brjóstagjafarinnar þegar geirvörurnar eru sárar. Með hjálp öndunarinnar næ ég að slaka öxlunum niður frá eyrunum og finn þá hvernig allt verður auðveldara. Þegar ég geri hafhljóðið er svo nánast eins og ég sé að kveikja á krana, það hjálpar svo mikið í að koma flæðinu af stað. Annað sem hefur hjálpað mér mikið er að vera sem mest með hann húð við húð og sleppa því að fara í sturtu, leyfa honum að njóta þess að þekkja mig á lyktinni minni, lyktinni okkar. Það er kannski ekki fyrir alla en ég held að hann sé öruggur með sig því hann þekkir mig svo vel, á lyktinni, lyktinni okkar.

Kvenlíkaminn er ótrúlegur og eftir því sem við konur tengjum betur við okkar innsæi í öllu ferlinu sem meðganga og fæðing er, því líklegra tel ég vera að við höfum tækifærið til að upplifa jákvæða, valdeflandi og uppbyggjandi fæðingu. Það krefst undirbúinings, og þá aðallega andlegs undirbúnings tel ég og það vera svo mikilvægan þátt í því sem Auður og samfélagið sem Jógasetrið er veitir okkur konum á meðgöngunni.

Þakklæti er mér efst í huga. Lífið er dásamlegt. Lífið er allskonar.

Kærar kveðjur, Guðrún, Árni og Arnaldur Smári

 

Á há-degi

Ég man ekki til þess að hafa verið lengur en þrjár vikur á einum stað alla meðgönguna. Við flæktumst hingað og þangað, austur og vestur, settum upp sýningu í London, ferðuðumst um Suður Ameríku og fögnuðum nýju ári í New York. Ég kláraði síðustu törnina í vinnunni tveimur vikum fyrir settan dag og beið eftir næsta fulla tungli. Það var fimmtudagur, sumardagurinn fyrsti, ég veifa firðinum í hríðarbyl og við Arnaldur keyrum saman heim til móður minnar á Egilsstöðum.

Frjóvgandi kynlíf á föstudagsmorgni kom ferlinu af stað. Það var vorhret og til stóð að keyra á Seyðisfjörð, en ynjan í mér skynjaði að í dag væri of mikil áhætta að læsast hinummegin heiðar. Um kvöldverðarleyti kallaði líkaminn á að leggjast. Og ég hlýddi og fól líkamanum verkið í trausti og æðruleysi. Miðnættið nálgaðist og óreglulegir verkir liðu eins og öldur gegnum líkamann. Ég lá á fjórum fótum og mjúktaði mig við koddann í takt við stórar ruggandi hreyfingar fram og aftur, inn í barnið og upp aftur. Nóttin kom og verkirnir komu. Mér fannst ég þurfa að setjast á klósettið þegar verkirnir skullu á, og dansaði í sífellu úr rúminu, fram á ganginn, studdi mig við sömu staðina, settist á klósettið, ruggaði mér og dansaði svo aftur í rúmið. Þetta var ekki merkilegur dans fyrir augað en nákvæmlega það sem þurfti inní aðstæðurnar. Ég hlýði líkamanum en veit lítið. Er þetta fæðing?

Arnaldur var nálægur með heilandi hendurnar sínar og hljómfagra röddina. Hann söng hjartaljúf. Lagið sem hann samdi inn í kviðinn á mér á ferðalögum okkar á meðgöngunni. Hann lagði mig í bað. Ég lá í baðinu og stillti punktinn minn þegar ég fann ilm af ástaraldin. Aldinilmurinn leið inn í blóðrásina og fyllti mig fegurð. Ilmurinn, bragðið. Ég var ástfangin og hugfangin, undirlögð af oxitósíni og ástaraldin. Ég lá í baðinu og við heyrðum þykkan kvell þegar vatnið fór í vatnið og umlék mig. Áferðin á húðinni mýktist. Þetta er fæðing.

Arnaldur er með ljósur á línunni, heimafæðingarljósan mín er fyrir norðan svo ferð á Norðfjörð er óhjákvæmileg. Annað hvort keyrum við sjálf eða förum í sjúkrabíl. Ég vildi hvorugt og hér er eina augnablikið þar sem hökt kom á flæðið. Ég vil bara fá ljósuna til mín. Áður en ég veit af ligg ég á fjórum fótum aftur í bílnum okkar, svolítið eins og ær að bera, og við þeysumst upp Fagradalinn. Ég lít upp úr hríðunum og sé svart, það er ljós fyrir endanum á göngunum. Ljósið nálgast, þar til mjallhvít fjöllin ofbirta augun. Og ég man hvað ég var að fást við.

11.10 og ljósan tekur á móti okkur á Norðfirði. Mig langar í bað, eða jafnvel sofna augnablik. “Þú ert með 10 í útvíkkun og kollurinn er kominn “svona” langt. Ef þú vilt koma í bað verðum við að drífa okkur í það strax”. Ég vissi aldrei hvað “svona” stóð fyrir en baðið var hlýtt og notalegt. Þarna varð allt svo spaugilegt og skemmtilegt. Arnaldur tók myndir. Ég flissaði. Andaði. Slakaði. Naut hríðanna, þær voru eins og víma. A söng og ég slaka inn í hríðarnar. “Ef þú rembist aðeins með þá fæðist barnið örugglega í næstu hríð”. Á ég að rembast? Auður sagði mér bara að slaka. Ég geri grindarbotnsæfingar með næstu hríð. “Prófaðu að rembast eins og þú sért að kúka.” Ó þannig, ég rembist gegnum hríðina og lítill kollur gengur niður fæðingaveginn, ég rembist aftur og kroppurinn skýst út. Kópurinn syndir í fangið á mér, syngur gegnum grátinn og grípur í akkerin sem hanga um hálsinn á mér.

Ég held honum og Arnaldur heldur okkur. Hring inní hring inní hring. Eftir dágóða samverustund veit ég að kópurinn minn er drengur, fæddur kl 12.00 á hádegi þegar sólin er hæst á lofti. Vorið kalda þegar lömbin fæddust í hríðarbyl.

Gengin um 30 vikur dvaldi ég í Reykjavík í tæpan mánuð og rambaði þá á Auði. Það var gjöf. Æfingar og öndun eru eitt, en skilningur, næmni og traust er annað og meira. Eftir fyrsta tímann spurði Auður: “Ertu dansari?” en ég er ekki dansari, ég hlusta bara á líkamann. Alla meðgönguna hafa líkaminn og innsæið haft stjórnina og ég fylgi með í auðmýkt. Kvenlíkami á meðgöngu er næmur og viðkvæmur dansari. Og það er sálin líka. Og meðgangan mín er lærdómsferli um að bjóða sársaukann velkominn, taka við, sætta við. Leyfa tilfinningum og hugsunum að líða gegnum okkur svo þær komist út, reynsla er mold. Engin mold; ekkert lótus.
Karna Sigurðardóttir.

Heilög messa

Það var annasamt vor. Ég kláraði verkefnin mín og ferðaðist vestur, suður, austur og ætlaði að vera viðbúin í þetta skiptið, ekki undirbúin en viðbúin. Ég ræktaði blóm. Umpottaði, vökvaði, elskaði blómin og þau elskuðu að vaxa með mér. Á kvöldin fékk ég ítrekað boð um fæðingarupphaf en alltaf gekk það til baka. Eftir því sem við biðum nálgaðist möguleikinn á að heimafæðingarljósan gæti verið með okkur í þetta skiptið. Hún var í útlöndum. En hún kom til landsins og hún kom austur og barnið enn ófætt. Við fengum skilaboð frá henni á þriðjudagskvöldi um að allt væri tilbúið, “og sofið rótt” sagði hún. Við A vorum eitthvað ekki samstillt um kvöldið og ég fór í bað. Með granatepli. Ég fyllti baðherbergið gufu, spilaði tónverkið sem systir mín samdi um samband okkar við föður okkar sem er farinn. Og ég kroppaði berin úr granateplinu og þau féllu í þríhyrningsformið milli brjóstanna og hæðarinnar sem umvefur barnið okkar. Þannig lá ég, andaði eins og hvalur og vingaðist við heiminn og heimilið.

Klukkan þrjú vakna ég. Sofna og vakna, sofna og vakna. 3.20. Ég sendi sms til ljósunnar og mömmu en veit ekki hvort þetta er kallið, eða kallið úlfur-úlfur. Uppúr hálf fjögur förum við hjónin á stjá, ársgamall drengurinn okkar sefur inni hjá okkur. Tengdamóðir og níu ára stjúpsonur inní öðru herbergi. Arnaldur stekkur í verkin af milli umhyggju; blása upp laugina, tengja slönguna, setja plötu á fóninn. Mamma fær skilaboð um að undirbúa komu tengdó og strákanna til sín. “Svo verður allt bara eins og um var rætt.” Ljósan á línunni, ljósan á leiðinni. Ég get ekki beðið. Arnaldur lætur renna í bað og mér liggur svo á að ég legst í tómt baðið. Það fyllist hægt. A veit að ég er í fæðingu, því hann þekkir strauminn frá því í fyrra. Hann veit það, en ég er löngu farin á annan stað svo djúpt inní mér. Mér finnst hlutirnir verða að ganga hraðar fyrir sig; talaðu hraðar, segðu henni að koma fljótt, fylltu laugina hraðar. En ég næ mér ekki útúr hægri þungri vímunni og byrja að kyrja. Röddin ferðast niður raddböndin, djúpt ofaní kviðinn og niður í mjöðm og þrýstist upp aftur af miklum krafti. Ég syng og líkaminn syngur þrjár hríðar. Ég stend upp og lít í spegilinn. Ég hef aldrei séð andlitið á mér svona slakt. Ég er í algjörri vímu og rugga mjöðmunum til. Maðurinn minn kemur í gættina á baðherberginu með garðslöngu í hendinni. Í því augnabliki er eins og líkaminn hrynji inní mér, frá brjósti og niður fæðingarveginn. Vatnið smallast í gólfið og mjúkt fitugt barnshárið liggur í lófanum á mér. “Þetta verðum bara ég og þú elskan” segi ég og baðherbergið breytist í skógarbotn. Hann er rakur og hlýr og lyktar af frjósemi. Ég stjórna ekki lengur. Líkaminn tekur við og leiðbeinir af áræðni og elsku. Ég stíg gleytt spor, lækka mjaðmirnar, styð mig við gamlan fallinn trjábol. Handleggirnir taka dýfuna með mjöðmunum, grípa stúlkubarnið og renna því uppí fangið á mér. Arnaldur fangar okkur. Þarna erum við eitt augnablik, eina eilífð. Hring inní hring inní hring inní hring.

Trjábolirnir teygja sig uppí himininn, sólarglæta skín á nefbroddinn. Stúlkan grætur lífsöskrinu, ég flissa. Ljósan er á línunni og Arnaldur leitar í rólegheitum að hreinni skóreim til að binda fyrir strenginn. Allt er svo ljúft og svo fyndið. Já var það svona, svona sem hún ætlaði að hafa þetta? Tengdó birtist. Hún er í uppnámi. En til hvers? Hún hálf skammast sín og herðir sig upp. Við heyrum kall innan úr herbergi og hún sækir litla drenginn okkar sem gleðst svo innilega að finna systur sína í fanginu á mér. Mamma kemur og stjúpsonurinn skríður framúr, og allir hringast um undrið á baðgólfinu. Elsku ljósan okkar, sem leiddi okkur gegnum þetta allt af svo mikilli alúð að enginn þurfti neinu að kvíða, hún kemur í kotið og blessar allt með heitum höndunum.

Mjúki eiturgræni mosinn sem ég ligg á er uppblásinn plastkútur sem líkist dekki. Sonur minn lemur mig í hausinn með garðslöngu. Hálfuppblásin fæðingarlaug er eins og illa gerður hlutur á stofugólfinu. Það er fylgja á eldhúsborðinu. Og stúlkubarnið okkar er fætt, á Margrétarmessu. Messu Margrétar þeirrar sem var dýrðlingur kvenna í barnsnauð. Við sofnum inní rísandi tungl og við vöknum inní hásumar. Hring inní hring inní hring inní hring.

Í annað skipti fékk ég tækifæri til að hitta Auði á meðgöngu. Hún horfði stíft og hlýtt á mig og sagði: “Ertu að hugsa um heimafæðingu?”. Hún vissi að ég vissi að líkaminn minn vissi að þetta myndi vera einhvernveginn svona. Kvenlíkami á meðgöngu er næmur og viðkvæmur dansari. Og það er sálin líka. Og meðgangan mín er lærdómsferli um að bjóða sársaukann velkominn, taka við, sætta við. Leyfa tilfinningum og hugsunum að líða gegnum okkur svo þær komist út, reynsla er mold. Engin mold; ekkert lótus.
Karna Sigurðardóttir.

 

Fæðingarsaga læknisins
Dagbjört Reginsdóttir – Stefania fædd 24.03.2015

Sæl elsku besta Auður mín.

Ég ætlaði fyrir svo lifandi löngu að vera búin að senda þér fæðingarsöguna mína að ég var farin að halda að hún ætti ekki við…. en svo er hún svo skemmtileg að ég ákvað að slá til. Dóttir mín hún Stefanía er núna rúmlega eins árs gömul og betra barn er ekki hægt að hugsa sér.

En sagan mín er ekki bara um fæðinguna hennar Stefaníu heldur allt ferlið sem að henni bjó og hvað ég lærði óendalega mikið á þessu.

Svo ég kynni mig þá heiti ég Dagbjört Reginsdóttir, ég er 38 ára gömul og er læknir. Ég ákvað að fara í læknisfræði 27 ára gömul, varð svo ólétt á 6. og síðasta árinu í læknisfræði og í undirbúningi mínum fyrir þá fæðingu þá ákvað ég að fara til Spánar í skiptinám og vera þar á fæðingardeild í 6 vikur og tók svo loka verknámið mitt og próf í kvenn og fæðingarlækningum í Ungverjalandi þar sem ég var í skóla. Eftir þá dvöl var ég fullviss um að ég vissi allt um fæðingar. Eða það taldi ég. Eftir þessa reynslu var ég hrædd og fullviss um eigin vangetu og mátt. Þarna sá ég hvernig kúltur, trú og aldur kvenna getur verið breytilegur. T.d. eru ekki einu sinni til ljósmæður í Ungverjalandi. Þar eru hjúkkur og fæðingarlæknar sem flestir eru karlmenn. Konur fæða 1-2 börn og mikið um keisara og inngrip.

Ég kom heim og taldi mig ekki þurfa frekari undirbúning. Verið í yoga frá unglingsárum og ég kunni að “anda”.

Svo fór fæðingin eins og ég bjóst við. Löng, verkjuð og ég þurfti hjálp. Tók 19 tíma, mænudeyfing og allir að snúast í kringum okkur. Því að svona sá ég þetta fyrir mér. En ég fæddi þreyttan dreng sem var fullkominn.

Svo varð ég ófrísk 3 árum síðar í annað skiptið með öðrum manni og í mínu heimalandi og þá deildarlæknir og ákvað því að ráða mig á kvenna og fæðingarsvið í 6 mán fyrir fæðinguna mína. Undirbúa mig aftur.

Ég tók á móti börnum í keisurum, gerði sogklukku, fór í bráðakeisara, saumaði rifur og taldi mig kunna allt sem kunna þurfti.

Hætti svo að vinna eins og ráðlagt var og fór í yoga því tíminn gafst.

Þar átti sér magnaðasta hugarfarsbreyting sem ég hef upplifað hjá sjálfri mér.

Því að við læknar þurfum nefnilega að minna okkur á að aðkoma okkar í lífi fólks er ekki normið. Við komum inn í þegar hlutirnir ganga ekki upp, þegar útaf bregður. Því getur sýn okkar á lífið verið skökk. Því fæðing…. er ekki sjúkdómur eða slys. En þegar eitthvað bjátar á, erum við með heimsins flottustu lækna og ljósmæður sem við getum verið stolt af og reitt okkur á 100%.

Hjá Auði í jogasetrinu átti ég yndislegar stundir þar sem mér var sagt að ég væri kraftverkakona sem gæti allt. Ljósið og gleðin og kyrrðin var mér ómentanleg. Því að ég þurfti að undirbúa fæðinguna mína…. í huganum, með mér sjálfri. Hvernig “ég” ætlaði að fæða dóttur mína. Ég fékk að tengjast henni og elska okkur saman þegar við vorum eitt. Þegar ég var orðin alltof stór og gat varla beygt mig, fékk ég stuðning og endalausa jákvæðni frá þér (Auði) og henni Satnam Kaur vinkonu okkar. =) Þegar ég kom heim ur joganu höfðu strákarnir mínir orð á því hve hamingjusöm ég væri alltaf þegar ég kom heim. Ég spilaði fyrir þá lögin sem við hlustuðum á í tímunum og voru þeir mjög áhugasamir um þetta allt. Ong namo var mjög vinsælt á heimilinu og oft allir að syngja saman fyrir fæðinguna!

Að heyra sögur af heimafæðingu og hinar fæðingarsögurnar voru rosalega uppörvandi.  Ég efaðist aldrei um að fæðingin yrði ekki stórkostleg. Verkurinn sem kæmi væri “kraft”verkur og mitt væri að gefa eftir og treysta á líkamann og mig.

Þegar að fæðingunni kom þá var ég dag frá gangsettningu og einn dag frá 42 vikum. Búið var að hreyfa við belg og nalastungur  en tíminn var greinilega ekki réttur fyrr en þarna. Dóttir mín fæddist gargandi spræk, fullkomin, 3 tímum frá fyrsta verk, rétt eins og ég hafði alltaf ímyndað mér.

Við brunuðum fljótlega upp á fæðingardeild því að hríðarnar voru strax sterkar og stutt á milli. Þegar við komum upp a deild var ég með útvíkkun 9 af 10 og rembingsþörf komin. En dóttir mín sneri með andlitið upp en ekki niður og því þurfti ég að ýta vel á eftir henni og þurfti ég að rembast í nærri klukkustund af þessum þrem klukkustundum sem fæðingin tók.

Barnsfaðir minn var minn klettur og án hans hefði ég aldrei viljað vera. Hann sem er alltaf svo sterkur og ekki mikið fyrir að sýna tilfinningar, grét gleðitárum þegar hún kom i einni gusu út. Hann studdi við mig og las mig svo vel svo. Algjörlega ómissandi.

Meðan á fæðingunni stóð náði ég að hugleiða, einbeita mér að því að slaka og gefa eftir. Því ég trúði á að við værum óhultar og sannfærð um að allt færi á besta veg.

Það sem hins vegar gerðist var það að fylgjan varð eftir og þurfti að sækja hana í svæfingu. Yndislegt! hugsaði ég…. þá er hægt að sauma mig í svæfingu!!

En helsti lærdómurinn úr þessu er að næst verð ég líka að sjá fyrir hvernig ég mun fæða fylgjuna.

Það sem eftir tók var yndislegur tími með lítillri dömu sem hefur brætt hjörtu okkar og styrkt ástina. Fæðingin var reynsla sem styrkti okkur foreldrana í að trúa á hvort annað, við trúum því að við erum megnug og þurfum á hvort öðru að halda í jákvæðum skilningi.

En Auður, ég vona að þetta hafi ekki verið of mikil langloka en mér finnst skipta svo miklu máli að koma að minni fyrri sögu þar sem ég taldi, eins og margar af mínum kynsystrum, að fæðing væri ógnvekjandi og nær óyfirstíganleg.  Ég er svo þakklát fyrir að hafa upplifað yndislega fæðingu. Þetta var mín draumafæðing! Ég get ekki beðið eftir að eignast mitt næsta. Takk fyrir mig!

Dagbjört Reginsd

FÆÐINGARSÖGUR

Uppáhalds mantran mín sem hjálpaði mér mest var ÁST – Anda, slaka, treysta; 

Elsku Auður og allar hinar í Jógasetrinu.
Mig langar til að byrja á að þakka ykkur fyrir allar dásamlegu stundirnar
síðustu mánuði. Ég skráði mig upphaflega í meðgöngujogað ykkar því ég á nokkrar vinkonur sem sögðu það hafa bjargað þeim við undirbúning fyrir fæðingarnar þeirra. Það sama á við um mína reynslu!

Þann 11. október fæddist dóttir okkar, Ásthildur Bára, eftir langa bið. Ég var sett þann 30. september og þegar sá dagur rann upp reyndi ég að gera eitthvað skemmtilegt, fara í jóga, borða góðan mat með enn betri vinum og pæla ekki of mikið í þessum setta degi og það gekk mjög vel. Þegar ég var komin 6 daga fram yfir var þreytan farin að segja til sín, ég svaf lítið sem ekkert og var þreytt á að bíða og svara endalausum skilaboðum : “jæja hvað er að frétta??” Öll trixin í bókinni voru prófuð en ekkert virkaði og taugarnar urðu trekktar yfir því hvort að líkaminn minn gæti virkilega ekki komið fæðingu af stað?! Daginn eftir fór ég í skoðun þar sem belgurinn var losaður og ég reyndi að  losa mig við þessar eitruðu hugmyndir sem eyddu traustinu sem ég hafði byggt upp í 9 mánuði til líkamans fyrir komandi verkefni.

Þegar ég var komin 10 daga fram yfir ákváðum við maðurinn minn að fara í afmæli ömmu hans og fara þannig út úr húsi fyrir eitthvað annað en bara göngutúr, jógatíma eða búðarferð. Ég fór í sturtu fyrir afmælið og þá fór slímtappinn. Þvílíka gleðin, loksins eitthvað að gerast! Amma mín, sem eignaðist 6 börn, sagði alltaf að börnin kæmu innan tveggja sólarhringa frá því að slímtappinn færi og ég ákvað því að trúa og treysta ömmu og mömmu minni sem á 5 börn sjálf. Mikið var gaman að hitta fólk þótt flestir töluðu ekki um annað en hvenær frænka myndi láta sjá sig og ég gat svarað því að það yrði vonandi ekki langt í það þar sem við værum bókuð í gangsetningu tveimur dögum síðar. Þegar heim var komið byrjaði ég að finna fyrir vægum túrverkjum en þorði ekki að leyfa mér að vona að eitthvað væri að gerast alveg strax. Kl. 10 sama kvöld fór ég í bað og byrjaði að finna sterkari verki. Um kl. 23:30 byrjaði ég svo að tímasetja verkina enda fannst mér allt gerast svo hratt.

Nóttin leið og ég svaf ekki neitt, verkirnir komu með 6-8 mínútna bili alla nóttina svo ég setti jóga lagalistann í gang og  „hafandaði“ mig í gegnum verkina. Á milli verkja reyndi ég svo að hvíla mig og pæla ekki of mikið í því að ég svæfi ekki heldur reyndi ég að gleyma mér aðeins. Þegar verkirnir fóru að versna upp undir morgun fór ég að bæta við einni af jóga æfingunum til að ná betri slökun í gegnum verkina. Sat á hnjánum og þegar verkurinn byrjaði reisti ég mig með hendur upp og lét öndunina stjórna leiðinni niður og hendur með.
Þetta kom mér í gegnum nóttina án þess að þurfa vekja manninn minn því ég hugsaði að ef dóttir okkar kæmi fljótt þá yrði hann í það minnsta að vera úthvíldur til að hugsa um okkur mæðgur.
Kl. 6 um morguninn lét ég renna í bað og hringdi upp á deild til að láta vita að við kæmum mögulega síðar um daginn og ég þyrfti því ekki gangsetninguna daginn eftir. Þegar þetta var voru ca. 5 mínútur á milli verkja en mér leið samt eins og ég hefði stjórnina og vantaði ekki frekari hjálp í gegnum verkina.

Um kl. 8 kom maðurinn minn fram og byrjaði að tímasetja verkina fyrir mig því ég treysti mér ekki lengur til þess, honum leist ekki á blikuna því hann náði ekki 3 mínútum á milli verkja og taldi tímabært að við myndum fara upp á deild. Ég fór því að klæða mig og reyndi aðeins að  borða og um kl. 10 vorum við komin upp á deild þar sem dásamleg ljósmóðir tók á móti okkur og tilkynnti að ég væri komin með 6 í útvíkkun og að öllum líkindum yrðum við foreldrar þennan dag!

Við fórum á fæðingarstofu og hittum aðra dásamlega ljósmóður sem tók við fæðingar óskalistanum mínum og lét renna í bað. Ég fór í baðið og spjallaði við hana um listann og tók hún sérstaklega fram að ég væri greinilega mjög vel undirbúin frumbyrja og spurði hvort ég væri búin að vera í jóga eða öðrum undirbúningi þar sem ég væri svo einbeitt, slök og undirbúin þrátt fyrir litla hvíld um nóttina. Verkirnir fóru að versna en ég hélt mínu striki í öndun og æfingunni og auk þess greip ég í gaddaboltann og var ofan í baðinu.

Kl. rúmlega 13 var ég komin með 8 í útvíkkun og fór að bæta við glaðloftinu þar sem verkirnir voru ansi harðir. En með glaðloftinu hélt ég samt alltaf í öndunina og gaddaboltann og komst þannig áfram. Á meðan þessu stóð reyndi ég að fara með í huganum möntrur sem ég hafði tileinkað mér úr jóganu.
Uppáhalds mantran mín sem hjálpaði mér mest var ÁST – Anda, slaka, treysta; með kommu yfir býr til ást ❤️ en þegar ég var alveg að gefast upp og að fara öskra og biðja um mömmu mína og segja að ég gæti ekki meir mundi ég eftir orðum vinkonu minnar sem sagði að þegar maður væri á þessum stað í fæðingunni væri svo lítið eftir svo ég ákvað að sleppa því og öskra frekar upphátt aðra uppáhalds möntru (maðurinn minn segir reyndar að ég hafi rétt muldrað hana en það er önnur saga) “ÉG ER OPINN FARVEGUR LÍFSINS” til þess að láta líkamann heyra að ég gæti þetta! En ég kom bara út orðunum  „ég er opinn farvegur“ og við það hélt ljósmóðirin að ég væri að biðja um mænudeyfingu en þegar ég endurtók þetta sprungu maðurinn minn og ljósmóðirin úr hlátri því ég hafði ekkert sagt í mjög langan tíma. Stuttu síðar baðst ég afsökunar á því að hafa pissað útum allt en manninum mínum tókst að sannfæra mig um að þetta hafi verið  „dásamlega tæra og flotta legvatnið“  sem hafi verið að fara.
Rétt fyrir vaktaskiptin kl. 3 var ég komin með 10 í útvíkkun og mátti því fara að rembast en átti erfitt með að ná því hvernig best væri að gera það. Kl. korter í 3 mætti nýja ljósmóðirin ásamt ljósmóðurnema og ljósmóðirin sem hafði verið með okkur allan tímann sagðist ekki tíma að fara alveg strax því hún héldi að barnið væri alveg að koma, hún hafði rétt fyrir sér því 20 mínútum síðar, kl. 15:05, poppaði fullkomna litla dóttir okkar í heiminn með hraði og kom okkur öllum á óvart hversu hratt hún kom enda kom hún öll út í einum rembingi! Maðurinn minn missti næstum af því þar sem hann var að hjálpa mér að rembast, hann hafði ætlað að biðja um að taka á móti dóttur okkar en þar sem allt gerðist svo hratt var það þannig að ljósmóðirin rétt náði að grípa hana!

Það sem ég get ráðlagt öðrum eftir mína reynslu er að gera haföndunin að ykkar besta vini, æfa hana í tímunum og heima fyrir með fæðingarfélaganum. Öndunin breytti öllu, vegna hennar var ég róleg ALLAN tímann og náði þar með að halda í traust mitt á líkama mínum fyrir verkefninu. Þegar ég datt út af sporinu kom maðurinn minn mér til bjargar því hann var búinn að æfa öndunina með mér heima og vissi hvernig hún virkaði.
Þegar ég lít til baka sé ég hvað allur undirbúningurinn í jóganu hjálpaði mér að upplifa mína draumafæðingu og fara inn í ferlið með ÁST að leiðarljósi, vitandi það að sama hvernig færi myndi dóttir mín koma í heiminn eins og hún ætti að gera og að það yrði því mín jógafæðing.

Gangi ykkur öllum sem allra best og ekki missa trúna þið sem eruð eða munið ganga fram yfir settan dag, litlu ljósin ykkar munu koma❤️

Kærleikskveðja,
Sigríður Erla

 

FÆÐINGARSÖGUR – Nýjasta sagan

Kæra Auður,

Í dag er yndislegi sonur minn sex mánaða. Í sex mánuði hef ég ætlað að skrifa þér til þess að deila með þér og öðrum sköpunargyðjum mögnuðustu upplifun lífs míns, fæðingu sonar míns, sem er mitt fyrsta barn.

Það var á fallegum vetrardegi í mars sem ég vakna klukkan fimm að morgni með verk. Ég var gengin 41 viku og 2 daga og búin að vera bíða óþreyjufull eftir fæðingu. Kvöldið áður hafði ég verið í jógatíma hjá þér, á dýnu aftast í salnum, en alla þá 4 mánuði sem ég hafði mætt í jógað var ég alltaf á sama staðnum í salnum; fremst til hægri. Þú horfðir á mig þar sem ég var aftast í salnum og sagðir “ég sé að þú ert að fara af stað, þú glóir”. Ég hló og hugsaði til allra þeirra í kringum mig sem voru stöðugt að spyrja hvort ég ætlaði nú ekki að fara koma þessu barni í heiminn. 

En aftur að morgninum eftir, þessi verkur var öðruvísi en allir þeir verkir sem ég hafði upplifað á meðgöngunni og ég vissi innst inni að þetta væri verkurinn sem ég var búin að vera bíða eftir. Ég hélt ró minni, vakti kærasta minn til þess að biðja hann um að sleppa því að fara í vinnuna, fór síðan út í góðan göngutúr með hundinn okkar og þegar ég kom inn skreið ég upp í rúm og fór aftur að sofa með hundinn til fóta í rúminu, ég er viss um að hann skynjaði hvað væri að fara gerast. Ég vaknaði aftur kl tvö eftir hádegi, ég var öll svo róleg og yfirveguð og að vissu leiti ólík sjálfri mér en ég á það til að stressa mig á öllum smáatriðum í kringum mig. Ég fór á klósettið þar sem að slímtappinn fór, en ég var samt að efast um að svo væri. Ég hafði aldrei upplifað þetta áður og mér fannst ég ekki geta verið viss um að þetta væri slímtappinn.

Ég færði mig fram í stofu og kom mér fyrir í sófanum fyrir framan sjónvarpið og kærasti minn spyr hvað ég vilji úr búðinni, ég vildi ekkert annað en piparhúðaðar möndlur og hann fór því út í búð að kaupa þær. Klukkutíma síðar kemur hann heim eftir að hafa farið í fjórar búðir og í þeirri síðustu fann hann piparhúðuðu möndlurnar. Klukkan þrjú var ég farin að efast um að ég væri virkilega farin af stað, eftir að ég hafði lagt mig voru verkirnir ekki verulega miklir og ekki reglulegir og ég hafði það bara ágætt. Ég fór því að hafa mig til fyrir matarboð sem okkur var boðið í um kvöldið. Klukkan fjögur ákvað ég að hvíla mig aðeins aftur í sófanum og þar sem ég ligg útaf finn ég tilfinningu eins og ég hafi pissað á mig. Ég stend upp og kem mér í átt að klósettinu á meðan vatnið lekur rólega niður fótleggina. Jú legvatnið var að fara. Ég ákvað á þessari stundu að hringja niður á Landspítala og láta þær vita af mér. Þar talaði ég við ljósmóður sem að dró verulega úr mér, hún sagði að það væri ekki endilega vatnið sem hefði verið að fara, það gerðist sjaldnar að vatn færi svo snemma í fæðingu, og þó að vatnið væri farið væri það ekki endilega merki um að ég væri farin af stað og þar sem barnið væri skorðað ætti ég bara að halda mér heima, taka verkjalyf og bíða, en koma til þeirra morguninn eftir. Að vissu leiti fékk þetta símtal mig til að efast um allt ferlið, ég efaðist um sjálfa mig, ég efaðist um að þetta væri legvatnið, ég efaðist um að slímtappinn hefði raunverulega farið fyrr um daginn, ég efaðist um að ég væri komin af stað í fæðingu og ég var fúl yfir þessu öllu saman. Ég settist aftur í sófann og sagði kærastanum að fara bara inn í herbergi í tölvuna, ég hefði það bara fínt frammi ein. Hann hló að mér að skipa sér í tölvuna og bað mig um að láta sig vita ef ég vildi fara í matarboðið, ég væri nú búin að hafa mig til fyrir það. Þegar ég sat í sófanum fann ég að verkirnir ágerðust og ég var farin að þurfa að standa upp. Þetta var svipað túrverkjum sem ég fæ en leiddi þó meira niður í fætur og aftur í bak í neistum. Ég tók á móti hverri hríð standandi og þetta ágerðist hratt. Ég stóð við stofugluggan og hallaði mér fram í hverri hríð og naut útsýnisins á meðan, birtan var svo falleg! Eftir að hafa tekið á móti nokkrum hríðum áttaði ég mig nú á því að það væri sanngjarnt að láta kærastann vita að þetta væri byrjað. Ég sendi honum skilaboð á facebook um að koma fram (því ég bara vildi ómögulega eyða tíma á milli hríða í að ganga að tölvuherberginu). Ég heyrði svaka læti þegar hann kemur í loftköstum fram og spyr afhverju í ósköpunum ég hafi ekki látið vita fyrr. Ég var hins vegar hin rólegasta enda hafði ég bara haft það gott ein með sjálfri mér og tekið hverri hríðinni fagnandi vitandi það að hún færði mig nær drengnum mínum.  Við létum vita að við kæmum ekki í matarboðið og horfðum svo á tvær bíómyndir saman í stofunni á meðan hann setti heita bakstra á bakið á mér í hverri hríð. Hann tók tíma á milli hríða en ég vildi ekki verða of upptekin af slíkum mælingum. Ég hef aldrei á ævi minni verið jafn yfirveguð og róleg. Ég var að nýta mér allt það sem ég hafði lært í meðgöngujóganu án þess að þurfa mikið að hafa fyrir því, það kom bara yfir mig þessi mikli jógaandi og ég var í algerri núvitund. Þegar tíminn fór að styttast á milli hríða vildi hann að við færum að koma okkur niður á Landspítala. Hann hringdi á fæðingardeildina og sagði þeim frá gangi mála. Hún sem var á hinum enda línunnar vildi fá að tala við mig, hún spurði hvort ég væri að eiga mitt fyrsta barn, ég jánka því og aftur upplifði ég hana efast um allt sem ég hafði að segja um eigin líðan, þær vildu að ég væri lengur heima í hríðunum þar sem ég hefði það nú bara ágætt og þá fór ég aftur að efast sjálfa mig. Ég efaðist um að ég væri komin af stað í fæðingu! Þrátt fyrir að hríðirnar væru að koma á 5 mínútna fresti! Þegar fór að nálgast miðnætti kastaði ég upp og þá hætti kærastanum að lítast á blikuna, hann hringdi í mömmu mína sem kom til okkar að sækja hundinn. Þegar mamma sá mig bað hún okkur um að fara koma okkur upp á deild, við værum nú ekki með aðstöðuna til þess að hafa þetta heimafæðingu. Ég var 10 mínútur að ganga niður fjórar hæðir út á bílaplan, á hverjum stigapalli stoppaði ég til að taka á móti hríð, ég lokaði augunum og andaði mig í gegn, eins og ég væri á brimbretti í gegnum ölduna. Það voru örugglega bara 3 mínútur á milli! Bílferðin var erfið, ég gat ekki setið þegar hríðarnar komu og þurfti að lyfta rassinum upp frá sætinu og svo snúa mér öfugt í sætinu. Mamma elti okkur upp á deild þar sem að hún var sannfærð um að ömmubarnið myndi skjóta sér í heiminn á leiðinni, það gerðist nú ekki og við kvöddum mömmu og hundinn á bílaplaninu. Þegar upp á fæðingardeild var komið tók á móti mér yndisleg ljósmóðir, Hildur Sólveig, hún mældi 5 í útvíkkun og ég bað um fæðingarstofu með baði, enda hafði ég heyrt margar góðar sögur í tímum hjá þér af fæðingu í baði. Ljósmóðirin tjáði mér að það væri engin stofa laus með baði en bauð mér að byrja að vera inná annarri fæðingarstofu þar til stofa með baði myndi losna. Við fórum inn á fæðingarstofuna og í hverri hríð lokaði ég augunum og nýtti allan minn innri styrk til að anda mig í gegnum ölduna. Á þessum tímapunkti gat ég lítið talað og fannst færa mér mestu rónna að hafa augun lokuð, öll samskipti við ljósmóðurina fóru fram í gegnum kærasta minn. Hún spurði hann hvort ég hefði verið í meðgöngujóga, hann sagði henni að ég væri búin að vera hjá þér Auður og á þessum tímapunkti fann ég að ég var að gera rétt. Ég fann fyrir trausti innra með mér og að allt þetta ferli væri á góðri leið. Um hálftíma eftir að við vorum komin inn á fæðingarstofuna fór ljósmóðirin fram að sækja sér kaffi og um leið og hún fer út af stofunni finn ég þessa skrítnu tilfinningu, ég bað kærasta minn um hringja bjöllunni, strax STRAX! Hann hringir bjöllunni og þegar ljósan kemur inn öskra ég “ÉG ÞARF AÐ KÚKA!!”. Hún bað mig um að koma mér upp á bekkinn svo hún geti skoðað mig. Jú 10 í útvíkkun takk fyrir og ég mátti bara byrja að rembast í næstu hríð. Næsta hríð mætti og ég rembist, önnur hríð kemur og ég rembist aftur, þær sáu í höfuðið á stráknum mínum og buðu mér að finna fyrir því. Þriðja hríð siglir yfir mig og aftur rembist ég, hjartsláttur drengsins var að hægjast og ljósmæðurnar og læknanemi sem var viðstaddur ákveða að kalla til lækni. Ég heyrði allt sem fór fram en ég fann fyrir svo miklu trausti á sjálfa mig og alheiminn að ég var ekki einu sinni hrædd þó þær væru að tala um hjartsláttur barnsins míns væri að hægjast. Drengurinn þarf að koma í næsta rembingi sögðu þær mér og að þær þyrftu að klippa, ég öskraði hæsta öskri sem ég hef á ævi minni öskrað og ég tók þær á orðinu og rembdist af öllum lífs og sálar kröftum. Ég fann fyrir barninu mínu skjótast í heiminn og áður en ég vissi af var hann komin á bringuna mína. Klukkan var 7 mínútur í tvö að nóttu og ég var komin með barnið mitt í fangið, rúmum klukkutíma eftir að ég hafði komið upp á deild. Þetta var fallegasta barn sem ég hef á ævi minni séð og ég taldi tær og fingur og horfði út um gluggann þar sem ég sá snjókornum kyngja niður undir gulri birtu ljósastauranna.

Þetta er magnaðasta stund lífs míns og ég er viss um að sú upplifun sem ég fékk í tímum hjá þér hafi komið sér vel í þessu ferli. Ég er svo spennt að eiga fleiri börn og upplifa þetta allt aftur. En eitt veit ég, að í næstu fæðingu ætla ég aldrei að efast, ég ætla að trúa og treysta á sjálfa mig alla leið. 

Yrsa GuðrúnÞorvaldsdóttir

 

Hæ kæra Auður,

Takk fyrir gott samtal eftir hádegistímann á þriðjudag og takk fyrir senda til mín söguna frá fyrstu fæðingunni minni. Þú talaðir um að lesa söguna í næsta tíma og því ákvað ég að drífa í því að senda söguna af annarri fæðingunni minni af því að ég held að það sé gott að sögurnar séu saman, önnur fæðingin mín var svo heilandi að mörgu leiti og sú reynsla sem ég mun horfa til núna í komandi fæðingu.

Önnur fæðingin mín – þar sem ég treysti:

Ég var að fara verða mamma í annað sinn. Það var erfitt að hugsa til þess að ég muni geta elskað jafn mikið og ástin sem kviknaði þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn en vinkonur mínar sem eru marga barna mæður höfðu sagt mér að hjartað stækki og ég hlakkaði til að finna þá tilfinningu. Í 10.vikna meðgönguverndartíma á heilsugæslunni fór ljósmóðirin yfir fæðingarskýrsluna úr fyrri fæðingu og hvatti mig til að kynna mér Björkina sem fæðingarstað vegna þess hve vel hafði gengið síðast. Fæðingarheimilið Björkin hafði opnað eftir að ég átti elsta strákinn en ég hafði heyrt góða hluti. Við maðurinn minn fórum í viðtal til Bjarkarinnar og vorum alveg heilluð af ljósmæðrunum þar og þessum möguleika. En eðlilega komu upp ýmsar spurningar tengt öryggi, hvað ef það þyrfti td að klippa aftur? Elva ljósmóðir í Björkinni svaraði öllum spurningunum okkar svo vel og við áttum mjög gott spjall, hún td sagði okkur að það væri mjög eðlilegt að það hægist á hjartslætti barns þegar það er að koma niður fæðingarveginn eða að ekki náist að mæla hjartsláttinn þegar það er á leið niður. Það var svo gott að tala við Elvu og hún fyllti mig svo miklu öryggi og trú á sjálfri mér. Við ákváðum að nýta okkur fæðingarþjónustu Bjarkarinnar.

Í aðdraganda fæðingarinnar var ég dugleg að undirbúa mig, mætti í jógað hjá Auði þegar mögulegt var og gerði jóga heima með Auði á tölvuskjánum þegar covid lokanirnar voru í hámarki. Dagana fyrir settan dag var rosalega gott vorveður, ég hlustaði á bókina hennar Inu May Gaskin Guide to childbirth og braut saman þvott í sólinni á pallinum. Í Bókinni er farið yfir fæðingarsögur og lestur bókarinnar auk jógans er það besta sem ég gerði í undirbúningi fæðingar. 

Mamma gaf mér líka bókina “Systa – Bernskunnar vegna” eftir Vigdísi Grímsdóttur og gengin 40 vikur las ég bókina í einum rykk, um bernskuminningar hennar Systu sem ólst upp í Laugardalnum á 6. Áratugnum, í byrjun bókarinnar er sagt frá heimafæðingu í Skipasundi, það var svo fallegt að lesa þessa minningu ungrar stúlku af því þegar mamma hennar fæddi yngra systkini hennar á meðan hún var úti að leika. 

Á sunnudegi gengin 40+5 daga vaknaði ég eldsnemma að morgni með stráknum mínum 3 ára, ég var með einhverja tilfinningu um að taka því rólega, daginn áður á laugardeginum höfðum við farið í göngutúr um Grasagarðinn og ég hafði fundið seiðing í kúlunni. Við áttum góðan sunnudag litla fjölskyldan á pallinum, grilluðum hádegismat og lékum okkur. Um miðjan dag tók ég mynd af mér með kúluna og ákvað að leggja mig, borðaði svo kvöldmat, þetta hlyti nú að fara byrja, ég var með einhverja tilfinningu og smá seiðing í kúlunni. Strákurinn minn átti erfitt með að sofna, eins og hann fyndi eitthvað á sér. Ég fór í sturtu og lét buna á bakið á mér því ég var byrjuð að vera aum í bakinu. Klukkan að ganga tíu hringdum við í foreldra mína og báðum þau um að sækja strákinn því hann sofnaði ekki, um leið og þau komu byrjaði ég að þurfa rugga mér og gera mjaðmahringi, það var eins og líkaminn minn skynjaði að ég væri ekki lengur að hugsa um þann 3 ára því nú byrjaði þetta. Við hringdum svo í Björkina og Elva svarar um að hún geri sig tilbúna til að koma. Elva kom kl hálf 12, það var svo gott að fá hana heim, ég var svo örugg og mér leið mjög vel. Maðurinn minn ýtti til hjónarúminu og undirbjó fæðingarlaugina, við settum á rólega tónlist, svefnherbergið okkar var eins og hin fullkomnasta fæðingarstofa. Elva skoðaði mig, það voru 3-5 mín á milli hríða og ég var með 7 í útvíkkun. Elva hringdi í Ástu ljósmóður til að láta vita að það væri líklega stutt eftir og Ásta kom, þær mældu líkamshitann minn og tóku reglulega stöðuna a hjartslætti barnsins. Allar mælingar voru gerðar í svo mikilli ró og samvinnu við mig . Um klukkan hálf eitt hvöttu þær mig til að fara í baðið, ég steig ofan í og VÁ þvílíkur léttir á kúluna og bakið.. ég sagði það upphátt “þvílíkur léttir! ég trúi ekki að ég hafi farið á mis við baðið síðast!!” Í baðinu tók ég á móti hverri hríð með öndun, trausti og yfirvegun, hékk fram á laugina og var á fjórum fótum, alltaf í þeirri stöðu sem mér leið best í og nú var farið að styttast á milli, við vorum að hlusta á tónlist og það kom lag með coldplay, ljósmæðurnar fóru að segja frá því að kórinn hennar Ástu hefði tekið lag með coldplay og klippt saman í covid kórmyndband, maðurinn minn fann þetta á youtube og við hlustuðum saman á lagið, þetta var svo skemmtileg og falleg stund og við vorum þarna öll saman í svo miklu trausti og léttu spjalli á milli þess sem ég tók á móti hríðunum. En svo fóru hljóðin aðeins að breytast í mér og ég fann að kollurinn var að koma, ljósmæðurnar leiðbeindu mér með það að hlusta algjörlega á líkamann og ég mætti rembast ef ég finndi þörf fyrir það. Höfuðið kom og þær buðu mér að finna fyrir því og svo í næstu hríð kom hann allur, fallegi drengurinn var komin í hendurnar mínar og beint á bringuna mína. 

Það var svo gott að liggja upp við brúnina í lauginni með strákinn í fanginu og manninn minn hinu megin við brúnina að dást að honum. Þetta var allt svo fullkomið, svo skriðum við saman upp í rúm í fyrstu brjóstagjöf. Í þessari fæðingu treysti ég á sjálfa mig alla leið! 

Ég hlakka svo til að upplifa þetta allt aftur í fæðingu þriðju barnsins sem ég er núna gengin tæpar 40 vikur með og sendi þér þessa sögu eftir að hafa átt svo gott og hvetjandi spjall við þig eftir jógatíma fyrr í vikunni. Takk Auður fyrir allt sem þú hefur gefið af þér til mín og fjölda annara kvenna. 

Kveðja, Yrsa Guðrún Þorvaldsdóttir