Fæðingarsögur

Fæðingarsögur

Elsku Auður og allir frábæru meðgöngujógakennararnir í Jógasetrinu.

Yndisblómið mitt er viku gamalt í dag. Ég er svo innilega þakklát fyrir allt það sem ég lærði í meðgöngujóganu – þvílíkt verkfærasett að hafa með í fæðingu. ÁST reyndist mér svo vel í annað sinn. Haföndunin er svo öflug og fleytti mér í gegnum hríðarnar.

Stúlkubarnið fæddist í vatni að kvöldi 21.apríl,  á afmælisdegi langömmu sinnar, hjá yndislegu og traustu ljósmæðrunum Rut og Elvu í Björkinni. Þær eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Þetta er annað barnið mitt, en fyrir á ég strák sem nýorðinn 2 ára, sem Rut tók einnig á móti í vatni á Landspítalanum. En ég var líka í meðgöngujóga í Jógasetrinu á þeirri meðgöngu.

Ég fékk í fyrsta sinn samdráttarverki á meðgöngunni að kvöldi þriðjudagsins 20.april (40v +1d) en ekkert varð meira úr því, en ég var glöð að eiga tíma í mæðraskoðun hjá Rut og Elvu daginn eftir. Ég hafði verið í hádegis tímanum í meðgöngujóganu þennan dag, þar vorum við hlið við hlið, Fanney komin 41 viku og ég komin 40 vikur. Seiðingurinn og samdrættirnir byrjuðu svo aftur seinnipartinn daginn eftir, miðvikudaginn 21.apríl, en það var í fyrsta sinn sem ég þurfti að afskrá mig úr meðgöngujógatíma vegna þreytu – ég valdi sem sagt frekar að leggja mig en að fara í jóga kl 2 þann dag. Samdrættirnir voru allt öðruvísi en með fyrsta barn, meira að framan en í bakinu, þannig mér fannst þetta hlyti frekar að vera samdrættir en hríðir. En þetta ágerðist og ég hafði litla matalist og maðurinn minn svæfði strákinn meðan ég var að reyna leggja mig og anda í gegnum verkina. Vatnið fór kl 20:20, bara 3 tímum eftir að verkirnir byrjuðu – þetta voru sem sagt hríðir. Sem betur fer gátu foreldar mínir komið og sótt nýsofnaðan strákinn og við drifum okkur í Björkina eftir að hafa hringt í vaktsímann. Ég var heppin að stóra stofan þeirra hafði losnað hálftíma fyrr – þar hafði jógasystir mín Fanney fætt rétt á undan hjá Ástu og Elvu – skemmtileg tilviljun. Ég var fegin að komast í laugina, vatnið hjálpar svo ótrúlega mikið til við að anda og slaka – ég treysti Rut og Elvu og sjálfri mér fullkomlega til að koma barninu í heiminn – þó mig grunaði ekki þá hvað ég fengi það fljótt í hendurnar. Ég var alveg innhverf, vildi ekki láta tala við mig né snerta óumbeðið. Verkirnir voru miklir þó öndunin hjálpaði mér að slaka, gaddaboltinn og hönd mannsins míns vel kramin, til stóð að sprauta saltvatni undir húðina á verkjasvæðinu þegar rembingsþörfin kom skyndilega – ég vildi fara á klósettið en Rut sagði að barnið væri að koma! Ég trúði því varla. Rut og Elva ásamt manninum mínum skiptust á að ýta á mjaðmirnar í hverri hríð sem hjálpaði mikið. Verkirnir voru mun viðráðanlegri og ég gat stjórnað rembingnum þegar hann dembdist yfir mig. Kollurinn mjakaðist hægt og gætilega út, mögnuð tilfinning að ná að stjórna því, og svo kom ein hrið enn og barnið var fætt – innan við tveimur klst eftir að ég kom í Björkina! Að fá barnið í hendurnar var ólýsanlega mögnuð tilfinning – yfirþyrmandi gleði, auðmýkt og undrun. Og þakklætið og gleðin hrísluðust um mig þegar ég uppgötvaði að þetta var stelpa – maðurinn minn fagnaði ógurlega – enda langaði okkur mikið að eiga bæði strák og stelpu. Þessi fæðing gekk ótrúlega vel og Rut og Elva voru eins og klettar þarna við laugarbrúnina, ég fór svo upp úr lauginni því það virtist blæða töluvert, en sem betur fer varði það stutt,  með yndisblómið á bringunni og svo brjóstinu allan tímann meðan þær þrýstu á legið og svo kom fylgjan hratt og vel – og ekkert þurfi að sauma – ég þakka haföndunni fyrir það. Mikið var gaman að skoða það skrítna fyrirbæri fylgjuna – lífsins tré. Við fengum svo að fara heim 3 klst eftir að barnið var fætt, því allt var eðlilegt og við mæðgur í góðu standi. Þessa dagana nýt ég þess að hafa hana í fanginu sofandi á brjóstinu – lífið er ljúft.

Reynslan mín af Björkinni hefur verið mjög góð, sérstaklega að fá svona samfellda þjónustu frá 34. viku og vita svo að hverju maður gengur í fæðingunni, bæði hvað varðar ljósmæður og aðstöðu. Eftir að hafa verið í meðgöngujóga og tileinkað mér haföndun finnst mér erfitt að skilja hvernig hægt er að koma barni í heiminn án þessarar frábæru andlegu og líkamlegu tækni sem haföndunin er.

kærleiks kveðjur, Þorbjörg