Möntrustund með tónheilun til styrktar Bleiku Slaufunni

Laugardaginn 28. október 2023

Klukkan 16:00 – 17:30
“ Komdu að njóta og þiggja og gefa um leið. Það er dásamleg hringrás “ – Allur ágóði fer til styrktar Bleiku slaufunni!
 
BJARTEY og DÍSA og möntrurnar
Söng og tónlistarkonurnar Bjartey og Dísa töfra fram fegurð og leiða okkur í gegnum einfaldar möntrur og syngja einnig fyrir okkur frumsömd lög. Dísa og Bjartey smullu svo fallega saman í Jóganámi 2021-2022 og raddirnar þeirra einstaklega fallegar saman.
Bjartey hefur starfað sem tónlistarkona síðan 2008 í hljómsveitinni Ylja, hún lauk krakkajóga námskeiði árið 2013, útskrifaðist sem kundalini jógakennari árið 2019 og einnig Jógakennaranámi Jógasetursins síðstliðin vetur. Eftir að Bjartey fór á möntrutónleika með Mirabai Ceiba árið 2014 var ekki aftur snúið, hún gjörsamlega kolféll fyrir áhrifum þess að kyrja möntrur.
„Að kyrja færir okkur ró, það sefar hugann og hjálpar okkur að losa upp óæskileg hugsanamynstur sem valda okkur hugarangri. “Ég hef sjálf fundið að möntrur hafa mikinn heilunarmátt, þær hafa hjálpað mér í gegnum erfið áföll, að vera í núinu og lifa í kærleika og þakklæti.“
Arndís Árelía eða Dísa, eins og hún er alltaf kölluð, er tónlistarkona og kennari. Dísa hefur starfað við tónlist síðustu 25 ár, þar sem hún hefur bæði sinnt eigin tónlistarverkefnum og miðlað tónlist til barna og fullorðinna í gegnum píanó og trommukennslu. Dísa útskrifaðist úr Jógakennaranámi Jógasetursins síðstliðin vetur.
Dísa byrjaði að syngja möntrur fyrir fimm árum síðan og fann fljótt hversu magnaður og heilandi möntrusöngur getur verið. Hún hefur gífurlega mikla trú á heilunarmætti tónlistar og langar að miðla þeirri visku áfram til annarra í gegnum möntrusöng og tónlist. Í fyrra fór Dísa með Auði til Corfu og bræddi hjörtun þar með sínum yndislega söng. Og fékk tilboð um að koma í upptökur til Belgíu!
VALA SÓLRÚN – Kristalskálar og Gong
Vala Sólrún Gestsdóttir lærði Tónheilun og Tónþearpíu hjá Acutonics í Englandi.
Vala er ávallt að bæta við þekkingu sína með nýjum áföngum hjá Acutonics en grunnur Völu liggur í tónlist. Hún lærði á víólu sem er hennar 1. hljóðfæri en seinna lá leið hennar í Listaháskóla Íslands þar sem hún lauk BA prófi í Tónsmíðum (2011) og svo Meistaragráðu, m.mus, í Sköpun, Miðlun og Frumkvöðlastarfi (2013), við Tónlistardeild LHÍ.
Lengst af hefur Vala starfað sem hljóðkona en hún lærði hljóðfræði og hljóðupptökur við SAE Institute (2002) í London. Áhugi Völu á tónheilun kviknaði í kjölfar alvarlegra veikinda sem hún stóð frammi fyrir árið 2018. Hún fann aukinn kraft og lífsþróttinn á ný í gegnum tónheilun. Það var ekki aftur snúið því nú á þessi iðja hug hennar og hjarta og í dag leitast hún við að gefa áfram af reynslu sinni til þeirra sem til hennar leita í von um bætt lífsgæði.
Hjóðbylgjur ferðast mun hraðar í vatni en lofti og er líkaminn því mjög góður hljóðmagnari þar sem við erum um 70% vatn. Með hljóðbylgjum komumst við inn í líkamann àn þess að opna hann en hljóðbylgjurnar vinna á hnútum, spennu og öðru sem hindrar gott flæði innan líkamans bæði líkamlega og andlega.
Kristalsskálarnar sem Vala leikur á eru sjö talsins og eiga hver sinn tón sem talar við sína orkustöð. Hver orkustöð fær opnun og fínstillingu en áhersla verður lögð á að stilla rótarstöðina sem er jú grunnstöðin og sú sem allar hinar byggja á.
Gongið er kraftmikið lækningartæki fyrir taugakerfið, líkama og sál. Gongið gefur djúpa slökun er mögnuð leið að falla frjálst í djúpa kyrrð.
 
4000 kr. – Allur ágóði fer til styrktar Bleiku slaufunni!
KLÆÐNAÐUR – BLEIKT
Við syngjum og sköpum saman í kærleika og gleði. Komdu í einhverju bleiku, kjól, blússu, buxum, sjal, sokkar, Blóm í hári
 

„Það er meðfætt tilkall hverrar manneskju að vera hraust, helg og hamingjusöm“

 

– Yogi Bhajan.